Gullna hliðið á Rás 1 á sunnudag

Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson


  • Prenta
  • Senda frétt

Hinn sígildi íslenski alþýðuleikur, Gullna hliðið, eftir Davíð Stefánsson verður fluttur á Rás 1, sunnudaginn 30. desember og hefst flutningurinn kl. 12:55. Hér er á ferðinni sannkölluð perla úr safni Útvarpsleikhússins.

Með hlutverk Jóns bónda fer Brynjólfur Jóhannesson, kerlingu hans leikur Arndís Björnsdóttir, Óvininn (skrattann sjálfan) leikur Lárus Pálsson og með hlutverk Vilborgar grasakonu fer Gunnþórunn Halldórsdóttir.

Flutt er sýning Leikfélags Reykjavíkur frá leikárinu 1941-1942. Upptakan var gerð árið 1950 á lakkplötur og hefur Hreinn Valdimarsson hljóðmeistari Ríkisútvarpsins farið um hana höndum og hljóðhreinsað eftir föngum til að hinn eftirminnilegi leikur stórstjarna íslensks leikhúss á miðri síðustu öld, fái notið sín sem best.

Eins og kunnugt er byggði Davíð leikrit sitt á þjóðsögunni um kerlingu nokkra sem gat ekki hugsað sér að sál hins breyska  bónda síns hafnaði áhið neðra. svo hún bregður á það ráð að ná sál karls í skjóðu þegar hann geyspar golunni og arkar af stað til himnaríkis í von um að koma sál karlsins inn um hið gullna hlið.

Fjöldi annarra leikara fara með hlutverk í leiknum. Útvarpshljómsveitin leikur og útvarpskórinn syngur undir stjórn Victors Urbancic.

Prologus flytur skáldið sjálft, Davíð stefánsson. Tónlist er eftir Pál Ísólfsson og leikstjóri er Lárus Pálsson.

Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1, sunnudaginn 30. desember, kl. 12:55               

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku